6/1/09

Hertar sultarólarVerksmiðjan á Hjalteyri

Hertar sultarólar
30. maí - 21. júní 2009
opið um helgar frá kl. 14 – 17

Sýningarstjóri Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
4624981 / 8655091

Arnfinna Björnsdóttir er fædd á Siglufirði 19.07.42. Frá unga aldri hefur hún lagt stund á margskonar handverk og listsköpun sem henni hefur verið hugleikin. Á árunum 1989-92 sótti hún kvöldskóla í myndlist undir leiðsögn Örlygs Kristfinnssonar og í framhaldi af því kom hún sér upp vinnustofu og sýningaraðstöðu að Aðalgötu 13 Siglufirði. Þar hefur hún haldið sýningar á verkum sínum undanfarin 5 ár.
Sýningar utan vinnustofu hafa verið í Kompunni á Akureyri og á Gráa svæðinu í Þelamerkurskóla ásamt samsýningum eins og List án landamæra í ár. Viðfangsefni Arnfinnu eru nú klippimyndir unnar úr tímaritum og dagatölum, mynningar frá síldarárunum á Siglufirði.

Gamli Elgur er fæddur 1969. Hefur hefur oft sýnt allra handa listaverk bæði einn og sér og með öðrum, bæi úti og inni á ýmsum árstímum.
Verkið "Aðstaða- Gálgi til að hengja sig í" er enn ein skrautfjöðrin í hatt listamannsins, sem er pípuhattur.

George Hollanders er sjálfmenntaður leikfangasmiður sem hefur rekið leikfangasmiðjuna Stubb síðan 1994. Hann er mikil áhugamaður um vistvænni hönnun og sjálfbæra þróun og er sífellt leitandi að leiðum til að nálgast samfélagið og umhverfi sitt frá þeim sjónarhóli.
George sýnir ýmsar innsetningar sem hann vann að stórum hluta með sonum sínum Ívari og Viktori Hollanders. Þetta er samansafn af endur- og gjörnýttum munum sem hafa í sköpunarferlinu orðið að einhverskonar ádeilu á neyslusamfélagið sem við búum í. Um er að ræða fullunna endurunna hluti en einnig „concept“ sem ætlað er að vekja til umhugsunar eða vera innblástur um möguleika sem við höfum til að skapa okkar eigin veruleika... Síðan er eitt
verk unnið í samvinnu með Guðrúni Steingrímsdóttur þar sem horn, bein og bíladekkjaslanga ráða för.

Hafdís Ólafsson var ástríðufullur safnari frá Siglufirði. Virðing hennar fyrir húsbúnaði, skrautmunum og nytjahlutum var aðdáunarverð og var heimilið vandlega útbúið þannig að best færi um söfnin. Hafdís setti upp og starfrækti safn á gamla gull og úrsmiðaverkstæðinu á Siglufirði, það eina sinnar tegundar. Í Verksmiðjunni fáum við að sjá safn straujárna sem marka upphaf þess ágæta verkfæris til dagsins í dag.

Hans Pétur Kristjánsson er bifvélavirki og bóndi. Hann mætir með gamalt mótorhjól og heimasmíðuð verkfæri.

Haraldur Ingi Haraldsson nam myndlist við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands og í Hollandi. Hann hefur haldið fjölda sýninga.
Codhead / Þorskdóms verkin byrjaði hann að vinna árið 2000. Verkin eru innsetningar, 3 víð veggverk, teikningar og málverk. Á Hjalteyrarsýningunni eru 2 innsetningar.
Þorskurinn skipar veigamikinn sess í sögu íslensku þjóðarinnar. Gríðarlegum auðæfum hefur verið safnað með þorskveiðum og verslun. Þau hafa byggt upp íslenskt samfélag til góðs og ills.
Codhead er speglun orðsins Godhead og Þorsksdómur orðsins Guðdómur. Þar er einhverskonar samfélagskerfi tilvistar, regla og tákna. Önnur vídd til að rannsaka frá þessari.

Henriette van Egten er Hollenskur listamaður sem árlega dvelur í húsi sínu hér á Hjalteyri við listsköpun. Annars er hún búsett í Amsterdam og rekur þar bókverkabúðina Boekie Woekie ásamt Rúnu Þorkelsdóttur og Jan Voss. Myndirnar sem Henriette sýnir í Verksmiðjunni vann hún á Hjalteyri síðasta sumar upp úr umbúðum sem féllu til utan af matvöru.

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir textíll - vinnustofa - land - garður - pappír -rafmagnsvírar - tréafklippur - dúkkur - stelpur - dans - himinn - svífur - kjólar.

Jónborg Sigurðardóttir útskrifaðist úr Myndlistarskólanum á Akureyri vorið 1995 úr málunardeild, stundar nú nám í fatahönnun í Danmörku. Ég hef alla æfi verið safnari og ætla alltaf að búa til eitthvað úr því sem flestir myndu henda, fötin sem ég hef breitt á einfaldan hátt fá annan tilgang og hlutverk. T.d. kjóll með útsaumsmynd af Amaliuborg er fínn til að vera í Danmörku og undirkjóll með ásaumaða barbí kjólnum er undirkjóllin fyrir þennan kjól. Svo er gullblússan götótt því sælir eru þeir sem geta klórað sér í gegnum götin. Endurvinnum og hefjum sjálfsþurftar búskap.

Kristinn Rúnar Gunnarsson (Kiddi) er fæddur á Akureyri 1980.
Hann hefur fengist við tónlist frá unglingsárum en fór að prufa sig áfram í myndlist árið 2005. 2006 skipti hann penslinum út fyrir pappír.
Efni í tvívíðu myndirnar er fengið úr Dagskránni og einstaka tímariti, og eru þær unnar á karton úr morgunkornspökkum. Þrívíðu myndirnar (í plastinu) eru unnar úr sígarettupökkum, Dagskránni og einstaka tímariti.
7.og 8. bekkur Þelamerkurskóla Nemendur Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur hafa á undanförnum árum fengist við endurhönnun eða endursköpun tilfallandi hluta eins og heimilistækja og leikfanga. Nemendur vinna á eigin forsendum eftir að hafa fengið kynningu á listaverkum þekktra listamanna á borð við Dieter Roth og umfjöllun um kvikmyndina Toy story. Verkin voru unnin nú á vordögum.

Anna Richards er Akureyringur sem hlotið hefur starfslaun og viðurkenningar fyrir list sína. Hún er þekktari fyrir dansgjörninga sína en fatahönnun og saum eins og nú gefur að líta.

Laufey Pálsdóttir er útskrifuð frá Myndlistaskólanum á Akureyri og stundar alla jafna rósamálverk. En hér sýnir hún á sér aðra hlið með endurunnum verkum sem eiga sér sterka tengingu við fjölskyldu hennar.

Erika Lind stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri og hefur um nokkurt skeið unnið á Listasafninu á Akureyri. Oft hefur það vakið athygli fólks hversu lífleg og falleg heimasaumuð föt Eriku eru sem hún sýnir nú.

PéturK (Pétur Kristjánsson) fæddist í BNA árið 1952 Hann stundaði nám í þjóðfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Hefur búið á Seyðisfirði síðan 1984. Á árunum 1991 til 1998 vann hann að mörgum verkefnum með og fyrir vin sinn og læriföður Dieter Roth. Pétur er forstöðumaður Tækniminjasafns Austurlands. Hann hefur verið prófessor í Dieter Roth Akademíunni frá stofnun hennar árið 2000 og er stjórnarformaður Skaftfells, miðstöðvar myndlistar á Austurlandi.
Verkið “Málað eftir númerum” inniheldur stórvirkar vinnuvélar, m.a. skurðgröfur, dráttarvélar og flutningabílar.