8/12/08

START

Í stærri borgum er ekki óvanalegt að rölta inn í verksmiðjuhúsnæði sem tekið hefur verið yfir til listrænna nota. Myndlistarmenn eru stétt í eilífri húsnæðisleit. Bæði leita þeir sífellt að ódýrum vinnustofum, en einnig að skapandi sýningarrými. 

Í stærri borgum er ekki óvanalegt að rölta inn í verksmiðjuhúsnæði sem tekið hefur verið yfir til listrænna nota. Myndlistarmenn eru stétt í eilífri húsnæðisleit. Bæði leita þeir sífellt að ódýrum vinnustofum, en einnig að skapandi sýningarrými. Á undanförnum áratugum hefur sýningarrýmið orðið æ stærri hluti af sýningum og listaverkum, sem taka mið af því bæði sjónrænt og huglægt, og oftar en ekki verður rýmið sjálft beinlínis innblástur listaverka. Hin eilífa húsnæðisleit er því ekki neikvæð og vegna skorts, heldur jákvæð og skapandi. Einn slíkur möguleiki opnaðist á Hjalteyri í sumar, fyrir tilstilli listamanna með augun opin. Þar hefur verið opnuð menningarmiðstöð undir nafninu Verksmiðjan, rétt eins og fræg listasmiðja Andy Warhol í New York á síðari hluta 20. aldar. Það er gamla síldarverksmiðjan á Hjalteyri, eitt sinn sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu, sem fengið hefur nýtt hlutverk. Feikistórt verksmiðjuhúsið býður upp á mikla möguleika, hvort sem um er að ræða myndlistarsýningar eða aðrar uppákomur en hér hafa verið tónleikar, listasmiðja og væntanleg er ljóðadagskrá. Níu listamenn í Arnarneshreppi sem standa að þessu framtaki, auk nokkurra sem búsettir eru annaðhvort inni á Akureyri eða erlendis. Markmiðið er að skapa umhverfi og aðstöðu fyrir menningarviðburði í hreppnum, aðstöðu á staðnum sem um leið opnar dyr að umheiminum.

Listin tekur við af síldinni
Yfirstandandi sýning var opnuð í byrjun ágúst og listamennirnir sem sýna eru bæði innlendir og erlendir og tilheyra þremur kynslóðum. Kristján Guðmundsson sýnir teikningu og eldra verk, olíumálverk sem fæstir myndu tengja verkum hans í dag. Bæði verkin öðlast nýja vídd í þessu umhverfi. Magnús Pálsson sýnir teikningar frá árinu 1965, forvitnilegar og lífrænar sem sýna einhvers konar samspil líkama og vélar, óbeint má ímynda sér það margbreytilega samspil líkama og véla sem verksmiðjan hefur hýst á sínum tíma. Listakonan og teiknarinn Sigga Björg Sigurðardóttir sýnir teikningar og myndband við tónlist, innsetning sem verður hrárri í þessu umhverfi. Í dimmum sal innst í verksmiðjusalnum má sjá kvikmynd Nicolas Moulin þar sem saman koma maður, náttúra og byggingarlist á gotnesk-súrrealískan máta. Arna Valsdóttir fangar andrúmsloft verksmiðjunnar og liðins tíma í myndbandi sínu sem undirstrikað er með söng og tekið upp í húsnæðinu sjálfu. Staðsett í rýminu miðju verður það eins og hjarta sýningarinnar sem slær í takt við umhverfið. Þá er ónefnt framlag síbreytilegs samvinnuverks undir nafninu Boekie Woekie, myndverkabókabúð í Amsterdam sem birtist einnig í innsetningum sem þessum þar sem sýnd eru myndverk í bókaformi eftir m.a. Jan Voss. Utan dyra er síðan að finna listaverk eftir Alexander Steig, á blámáluðum dyrum er að finna skilti með nafninu Verksmiðjan og út um dyrnar berst stöðugur dynur danstónlistar, rétt eins og þarna sé að finna næturklúbb.

Framhald verður á sýningarhaldi í Verksmiðjunni í september þegar Grasrótarsýningin árlega með verkum ungra listamanna sem hingað til hefur verið í Nýlistasafninu verður opnuð á sama tíma og Sjónlistaverðlaunin verða afhent á Listasafni Akureyrar. Ekki er víst um frekara framhald í vetur þar sem húsnæðið er óupphitað, en vænta má öflugs starfs næsta sumar. Verksmiðjan er flott og vel heppnað framtak, þar sem vel kemur fram hvernig skapa má ný tækifæri á óvæntan hátt ef augun eru opin. Ef til vill er þetta lýsandi dæmi um breytingar í samfélaginu og aukið vægi menningar í atvinnu- og nýsköpun.
Ragna Sigurðardóttir

Opnuninn Arna Vals
Nicolas MoulinsSigga Björg Sigurðardóttir


Magnús Pálsson

Kristján GuðmundssonBoeki Woekie
Kammerkórinn Hymnodia:

Undirbúningur: