8/11/08

Samantekt af listasmiðjunni Landnemar nýtt samfélag.






Síðastliðinn sunnudagsmorgun þegar klukkan var rétt að verða 10.00 renndi ég niður að Verksmiðjunni á Hjalteyri. Það virtist ætla að viðra vel til útivinnu með unga fólkinu sem skráði sig í listasmiðjuna hjá okkur.
Þær voru mættar með mæðrum sínum, Fríða Björk, Kolfinna og Kristín Eva vinkona hennar. Skömmu síðar kom Rósa Júlíusdóttir lektor í myndlistakennslu og tyllti sér á stein í fjörukantinum. Hún fékk að vera áhorfandi og ransóknaraðili að þessu samstarfi.
Sveinn kom röltandi með föður sínum og Kristján Máni var tilbúinn í slaginn. Gústav Bollason, Odda Júlía, Brák og Ugla renna uppað Verksmiðjunni og síðast en ekki síst Þórarinn Blöndal, Marsibil og Unnar.
Við hófum leikinn norðan við tankana við vatnsbakkan. Þátttakendur settust niður við einn tankinn og ég kynnti hugmyndina um landnámið og nýja samfélagið sem við gætum stofnað. Undirtektir góðar, Kristján taldi að við þyrftum fyrst og fremst að búa okkur til skjól, eitthvað að borða og að helga okkur land. Kolfinna greip hugmyndina um mat og veltir fyrir sér möguleikunum. Kríur voru þar efstar í huga síðan hundasúrur og krækiber í eftirrétt. 
Fljótlega kom upp hugmyndin um fleka á vatnið sem kjæmi sér vel við veiði og til skemmtunar.
Við töluðum um að líklega þyrftum við einnig að gera eitthvað fyrir andann, eins og myndskreytingar. Brák datt í hug að gosbrunnur yrði tilvalinn en við gátum ekki gert hann.
Allir voru sammála um að hlaða upp eldstæði og Kristján bennti á að líklega væri gott að mynda ríkisstjórn.
Til að framkvæma allar þessar hugmyndir var ljóst að við þyrftum ýmsan efnivið. Lögðum við því af stað í vettvangs og efniskönnunarleiðangur með Gústav í broddi fylkingar. Fljótlega kom í ljós að vestan við Verksmiðjuna var allt sem við þurftum. Spýtur, strigi, netahringir, sperrur og ýmislegt dót sem hent hafði verið út við uppsetningu sýningarinnar START í Verksmiðjunni.
Það kom eiginlega að sjálfum sér að við skiptumst í hópa. Þegar hér var komið við sögu höfðu þrír listamenn bæst í hópinn, Nicolas Moulin, Clémentine Roy og Véronique Legros. Þórarinn hófst handa við húsasmíðina ásamt Unnari. Þeir reistu hjallasperrur eins og Indjánatjald og bundu saman með snæri. Nicolas og Gústav fóru að huga að flekanum og Véronique, Clémentine og Kolfinna hjálpuðu til við að draga að hráefni í flekann. Brák og Fríða einbeittu sér að húsgagnasmíðinni. Þær fundu stóra og þykka spítu sem hægt var að setja lappir undir. Síðar bættu þær auka horni á bekkinn svo hann varð þriggja til fjagra manna. Kristján smíðaði einnig góðan stól með aðstoð Uglu og Oddu Júlíu að mig minnir. Þriðji stóllinn var svo samvinna nokkurra aðila. Kolfinna og Kristín Eva smíðuðu stórt og fallegt borð sem staðsett var utanvið húsið.
Sveinn fór í að útbúa eldstæði í fjörunni sunnan við Verksmiðjuna. Hann safnaði saman stórum steinum og raðaði þeim í hringi sem pössuðu undir grillgrindur sem ég kom með. Þetta leit út eins og fornleifauppgröftur eða verk eftir Ritchard Long. Marsibil og Odda Júlía hnoðuðu deig í brauð til að hafa með pilsunum og hamborgurunum í hádeginu. Þær kunnu vel handtökin og úr varð fínasta brauð á grillinu. 
Nú var Unnar kominn í flekasmíðina með Nicolas og Gústav, Véronique og Clémentine að klæða tjaldið með striga og ég að hjálpa stúlkunum í húsgagnasmíðinni. Þórarinn og Marsibil gerðu síðan útskot á tjaldið sem líktist orðið höll frekar en tjaldi.
Um hádegisbil var samfélagið okkar farið að taka á sig mynd. Véronique hafði komið með málningu og auðvitað tók listrænt eðli krakkana völdin. Þau máluðu mynstur á sperrurnar og laufin á Baldursbránum sem stungið var í strigann innan í tjaldinu til skrauts. Bekkirnir voru einnig fagurlega málaðir og Odda Júlía málaði landslagsmynd sem hún hengdi upp inni. Odda og Kolfinna útbjuggu einnig fagurt Baldursbráabeð í sparslbakka. Marsibil fann frábæra súlu sem minnti á Indjánasúlu og málaði mynstur og tákn á hana. Súlan var látin standa við dyrnar inn í tjaldið.
Það var komið að hádegisverði. Gústav, Sveinn, Fríða, Brák og ég höfðum kveikt upp í grillinu með kolum og spýtnarusli. Hópurinn safnaðist nú saman við eldstæðið og hjálpaðist að við að grilla matinn og útbúa litla brauðhleifa úr deiginu. Allir höfðu góða matarlist og sólin sem hafði verið að fela sig á bakvið ský síðasta klukkutímann skein á okkur sunnan undir vegg.
Eftirrétturinn, sykurpúðar og eplabátar voru gómsætir.
Aftur hafist handa um kl. 13.30, það var aðeins farið að kólna svo að nokkrir strigatískukjólar voru sniðnir. Arna Valsdóttir kíkti við í búðunum okkar og hófst þá tónlistarspuni. Við höfðum safnað saman ýmsu sem hægt var að framkalla hljóð með eins og grjótum, spýtum, netahringjum, tunnum og hömrum. Þegar því lauk var ráðstefna inni í tjaldinu um nafn á þjóðflokknum. Rósa Júll tók þátt í rökræðum og tillögum þátttakenda sem komust að samkomulagi um að heita Ljóshöfðar. Á tímabili lá við að flokkurinn klofnaði vegna nafngiftarinnar. Sólin kom mikið við sögu þar sem Kolfinna var búin að útbúa sólarhljóðfæri og söng sólarsönginn rétt við tjalddyrnar. Ég og Marsibil stigum þar einnig sólardansinn.
Kristján mótmælti þessu væmna sólartali en var borinn yfirliði með Ljóshöfða nafnið.
Okkur þótti líklegt að ljós visku og hugmynda skini frá höfðum þessa ættflokks.
Eftir mikla vinnu og heilabrot var flekinn tilbúinn og bara eftir að koma honum niður að vatninu sem var 50 metra frá tjaldbúðunum. Gústav ákvað að binda hann aftan í bílinn sinn og draga að vatninu. Þetta gekk ágætlega og Ljóshöfðarnir ýttu á eftir flekanum.
Með sameiginlegu átaki komum við flekanum á flot og stoltið skein úr augum hvers manns. Odda Júlía og Ugla fundu langa og mjóa spítu sem hægt var að nota sem stjaka á flekanum. Gústav náði í árar og ég náði í björgunarvesti svo að okkur var ekkert að vanbúnaði að leggja í siglinguna.
Flekinn sem var heljar stór búinn til úr sperrum og bláum plasttunnum bar fimm manns. Farnar voru tvær ferðir með hugrakka Ljóshöfða. Stóri bróðir Fríðu slóst í hópinn og hjálpaði Gústav og Unnari að draga flekann á þann stað sem heppilegur var til að leggja frá landi. Hafgolan sá síðan um að koma flekanum yfir á suðurbakka vatnsinns.
Eftir góðan dag þegar klukkan var orðin 15.30, kvöddust þátttakendur listasmiðjunnar Landnám nýtt samfélag.
Við þökkum þeim kærlega fyrir samveruna.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir.