6/8/08
Fréttatilkynning: Verksmiðjan - Menningarmiðstöð á Hjalteyri opnar í ágúst 2008

Verksmiðjan
Menningarmiðstöð á Hjalteyri

Neðst á Hjalteyri // 601 Akureyri // 4611450 // http://www.verksmidjan.blogspot.com


Hópur listamanna, þar af 9 búsettir í Arnarneshreppi, hafa gert með sér samkomulag um rekstur menningarviðburða og vinnuaðstöðu í gömlu Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Undirbúningur hófst í október 2007 með hugmyndavinnu og nú hefur verið gert samkomulag við Arnarneshrepp um afnot af gömlu Verksmiðjunni.

Markmiðið er að efla menningarviðburði og ferðaþjónustu á svæðinu, samstarf við sveitarfélagið og skóla, og skapa vettvang fyrir listamenn á staðnum og vinna að nýsköpun í atvinnumálum á svæðinu. Stuðla þannig að jákvæðum búsetuskilyrðum á svæðinu.

Hafinn er undirbúningur fyrir fyrstu viðburðina í Verksmiðjunni og styrkir hafa fengist frá einkaaðilum, Menningarráði Eyþings og Impru, Nýsköpunarmiðstöð.

Aðstandendur hafa fjölbreytta þekkingu og reynslu við skipulagningu menningarviðburða, uppsetningu sýninga, námskeiða, bókaútgáfu og heimildamyndagerð.Menningarhátíð á Hjalteyri í ágústmánuði

Sérstaða menningarhátíðarinnar á Hjalteyri í ágústmánuði verður að teljast umtalsverð einkum með tilliti til staðsetningar, aðstæðna og dagsskrár - óskildar því sem er almennt í boði úti um land á þessum tíma. Lögð er sérstök áhersla á að velja einstaka listamenn sem geta tekið mið af aðstæðum og nýtt þær sem möguleika. Staðarval og tímasetning ásamt vali á kunnum listamönnum ólíkra kynslóða og mismunandi listhreyfinga, munu hjálpast að og draga að hina áhugasömu og hugsanlega kaupendur slíkrar þjónustu í framtíðinni. Hátíðin - sem jafnframt er tilraun og undirbúningur til frekara framhalds - hæfist á mestu ferðamannahelgi þjóðarinnar og umhverfið og óvanalegar ytri aðstæður myndu spila inn í, hafa mótandi áhrif á skipulag og uppsetningu viðburða og vekja um leið forvitni. Ytri skilyrði og ástand húsakynna eru frumstæð en spilað verður inn á það og fegurð þeirra undirstrikuð. Aukreitis en öllu þessu samofið verður boðið upp á listasmiðju fyrir börn og unglinga sem einnig telst afar mikilvægur forsmekkur að því sem koma skal.

Ef svo fer að uppákoma þessi leiði til þess að Hjalteyrarverksmiðjan og umhverfi hennar verði framtíðarstaður listamanna þá væri sérstaða hennar í listheiminum veruleg. Hún yrði nokkurs konar frumbýli - listin nemur land - og brúaði með því bil á milli þéttbýlis og landsbyggðar en einnig lands-byggðar og umheims. Hún yrði hvortveggja í senn ; svæðisbundin og næði jafnframt til stærri heildar, þar sem hún myndi bæði taka mið af þörfum og áhuga íbúa næsta nágrennis en um leið opna gáttir til umheimsins fyrir tengsl sín og samstarf við erlenda aðila. Sjálft mun umhverfið og húsakynni Hjalteyrar-verksmiðjunnar vekja athygli, hafa áhrif á sköpun og móta starfsemina og framleiðsluþætti (atriði sem kann, skiljanlega, að vekja undrun þeirra sem hafa haft hana of lengi fyrir augunum). Strax frá og með menningarhátíð yrði unnið að endurbótum með tilliti til þess hvernig húsakynni eru í raun, samspil náttúruafla og mannvirkja höfð í huga og að leiðarljósi. Verksmiðjan yrði eitt listaverk út af fyrir sig.Framleiðslan og þekkingin

Væntingar fólks til þessarar hátíðar og starfsemi á upphafsreit, mun fyrst og fremst verða mæld með tilliti til aðsóknar og viðbragða, ekki síst í formi umfjallana og fjölmiðlaathygli. Aðstandendur munu einnig standa fyrir öflugri kynningu.
Menningarleg þjónusta sem hér verður til og hátíðinni er ætlað að marka upphafið að mótast fyrir þörf ákveðins hóps listamanna til þess að skapa sér sameiginlegan vettvang og sjá sér hag í því. Slíkt fyrirkomulag á sér fjölmargar hliðstæður þar sem listamennirnir hafa vinnustofur sínar í einni þyrping og jafnframt aðstöðu til sýningahalds. Þar geta þeir komið eigin framleiðslu og annarra á framfæri. Í framtíðinni mun þjónustan meðal annars felast í því að listamennirnir geta opnað vinnustofur sínar og sýnt og haft á boðstólum verk sín, þeir munu bæði í sameiningu og einstaklingsbundið vinna að metnaðarfullri menningardagskrá og fjölbreyttri þar sem að samankomnir mynda þeir nokkurs konar banka tenginga og hugmynda sem allar fá að njóta sín. Þeir munu bjóða fram þjónustu sína til skóla, til barna og unglingastarfs og standa fyrir öflugu upplýsingastreymi og kynningarstarfi.

Allir þeir listamenn sem kallaðir eru til þátttöku á menningarhátíð að þessu sinni hafa vakið verðskuldaða athygli á sínu sviði, skipuleggjendur hafa allir hlotið framhaldsmenntun í listum og teljast hafa sérþekkingu á sviði lista og menningar. Þeir hafa reynslu af skipulagningu menningarviðburða, uppsetningu sýninga og störfum við kennslu og námskeiðahald.