7/29/08


Verksmiðjan
Menningarmiðstöð á Hjalteyri


Neðst á Hjalteyri // 601 Akureyri // verksmidjan.blogspot.com // 461 1450 // 865 5091


START

02.08. – 23.08.2008

Alexander Steig, Þýskalandi
Arna Valsdóttir, Íslandi
Boekie Woekie, Hollandi
Kristján Guðmundsson, Íslandi
Magnús Pálsson, Íslandi/Bretlandi
Nicolas Moulins, Frakklandi/Þýskalandi
Sigga Björg Sigurðardóttir, Íslandi/Skotlandi

Opið fimmtudaga til sunnudaga klukkan 14:00 - 17:00

Nánari upplýsingar á http://www.verksmidjan.blogspot.com

---
Myndlistarsýningin START opnar í Verksmiðjunni á Hjalteyri, laugardaginn 2. ágúst 2008 klukkan 14:00.
Sýningin stendur til 23. ágúst.
Opið frá fimmtudegi til sunnudags klukkan 14:00 - 17:00

Dagsskrá:

Laugardagurinn 2. ágúst
14:00 Opnun. Þátttakendur eru Sigga Björg Sigurðardóttir, Kristján Guðmundsson, Magnús Pálsson, Alexander Steig, Boekie Woekie, Nicolas Moulin og Arna Valsdóttir.

15:00 Arna Valsdóttir, Sönggjörningur
17:00 Arna Valsdóttir, Sönggjörningur
18:00 Ghazi Barakat, tónlistaratriði

Sunnudagurinn 3. ágúst
14:00 - 17:00 Listasmiðja
fyrir börn og foreldra. Opið öllum.

Laugardagurinn 9. ágúst
10:00 - 15:00 Listasmiðja fyrir börn
15:00 Arna Valsdóttir, Sönggjörningur
18:00 Kammerkórinn Hymnodia

Sunnudagurinn 10. ágúst
10:00 - 15:00 Listasmiðja fyrir börn
Listasmiðjurnar eru fyrir 10 til 14 ára krakka, ekkert þátttökugjald.
Umsjónarmenn: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Gústav Geir Bollason og Þórarinn Blöndal.
Skráning hjá Aðalheiði í síma 865 5091

Sunnudagurinn 17. ágúst
15:00 Ljóðadagskrá
í umsjón Jóns Laxdal

Sýningin stendur til 23. ágúst.

Stuðningsaðilar eru Menningarráð Eyþings, Impra, Nýsköpunarmiðstöð, Þýska sendiráðið og BYKO.


Nýtt upphaf í Verksmiðjunni á Hjalteyri

Fyrsta sýningin í gömlu verksmiðjunni á Hjalteyri er samansett af ólíkum myndlistarmönnum af þremur kynslóðum sem vinna í sex löndum. Þau vinna með innsteningar, kvikmyndir, myndbönd, hljóð, málverk, teikningar og gjörninga, svo eitthvað sé nefnt. Verksmiðjan sjálf er spennandi útgangspunktur og umgjörð fyrir verkin sem sum eru gerð sérstaklaga fyrir þessar aðstæður en önnur fá nýja merkingu í þessu hráa umhverfi.

Menningarhátíð á Hjalteyri í ágústmánuði 

Von okkar listamannanna sem standa að Verksmiðjunni að Hjalteyrarverksmiðjan og umhverfi hennar verði framtíðarstaður listamanna og þá væri sérstaða hennar í listheiminum veruleg. Hún yrði nokkurs konar frumbýli - listin nemur land - og brúaði með því bil á milli þéttbýlis og landsbyggðar en einnig landsbyggðar og umheims. Hún yrði hvortveggja í senn; svæðisbundin og næði jafnframt til stærri heildar, þar sem hún myndi bæði taka mið af þörfum og áhuga íbúa næsta nágrennis en um leið opna gáttir til umheimsins fyrir tengsl sín og samstarf við erlenda aðila. Umhverfið og húsakynni Hjalteyrar-verksmiðjunnar vekur athygli, hefur áhrif á sköpun og mótar starfsemina. Unnið hefur verið að grunnendurbótum á Verksmiðjunni en tekið tillit til umhverfisins og þess hvernig húsakynni eru í raun. Samspil náttúruafla og mannvirkja hefur verið haft í huga og að leiðarljósi. Verksmiðjan er eitt listaverk út af fyrir sig.


Listasmiðja barna og foreldra 3. ágúst 2008

Í þessari listasmiðju er lögð áhersla á að kenna þátttakendum að lesa umhverfi sitt og nýta til listsköpunar. Hjalteyrin er kjörlendi uppgötvana og ævintýra, sem þegar grannt er skoðað getur verið frábær útgangspunktur sköpunarferlis. Öll þekkjum við fjársjóðsleitina í fjörum landsins og í yfirgefnum verksmiðjum en í þessari smiðju fá börn og foreldrar innsýn í heim listarinnar með eigin uppgötvanir að leiðarljósi.

Listasmiðja barna 9. og 10. ágúst 2008

Hér er um að ræða þrjár smiðjur með leiðsögn þriggja ólíkra listamanna.
Áhersla er lögð á að vinna með fjölbreytt efni og með ólíkum aðferðum. Þannig geta þátttakendur valið sér miðil eftir áhugasviði og getu í samráði við leiðbeinendur.
Þema smiðjunnar er framtíð, fegurð, samvinna. Hóparnir vinna með þessi þrjú hugtök í sitt hvoru lagi og koma svo saman í lok listasmiðjunnar sem eitt verk.Um Hjalteyri af síðunni www.nat.is

Hjalteyri er smábyggðarkjarni norðan Akureyrar á Galmaströnd, þar sem var mikið athafnalíf á fyrri hluta 20. aldar. Litla höfnin á sandeyrinni er skjólgóð og veitingahús hóf rekstur sumarið 2003. Norðmenn hófu þarna síldarsöltun upp úr 1880 og þorpið varð löggiltur verzlunarstaður 1897. Svíar hófu þarna útgerð 1905 og Skotar næsta ár samtímis Þjóðverjum, sem gerðu mest út 10 skip til þorsk- og síldveiða. Síldin var stundum veidd í landnætur frá sjávarkambinum vegna þess, hve aðdýpi er mikið. Þarna fengu margir atvinnu á þessum gósenárum en árið 1914 hurfu allir útlendingar á brott og þá hafði einnig verið þrengt að möguleikum þeirra til fiskveiða hér við land.

Kveldúlfur hf., fyrirtæki Thors Jensens, tók Hjalteyri á leigu 1913. Thor ætlaði að reisa íshús og nota ís af tjörninni til að geta flutt út ferska síld til niðursuðu í Hamborg, en stríðið kom í veg fyrir það. Kveldúlfur hf. keypti Hjalteyri og jarðir upp til fjalls til að hafa nægilegt athafnarými og aðgang að góðu vatnsbóli. Þrátt fyrir góðan afla og mikla framleiðslu, átti fyrirtækið erfitt uppdráttar á kreppuárunum. Árið 1937 byggði það stærstu síldarverksmiðju í Evrópu á Hjalteyri. Hún var starfrækt til 1966. Á hinum undraskamma byggingartíma hennar voru frosthörkur miklar og þá var hitaður sjór til að blanda í steypuna, sem var hrærð í vélknúinni hrærivél.

Fyrirtækið lét einnig reisa nokkur glæsileg íbúðarhús. Framkvæmdastjórinn, Richard Thors og síðar sonur hans, Thor R. Thors, bjuggu í 500 m² húsi með bílskúr fyrir 4 bíla og aðstöðu fyrir þjónustufólk. Það er nyrzt af húsunum á brekkubrúninni. Annað glæsihús er Ásgarður, þar sem verksmiðjustjórinn, Pétur Jónsson, bjó í 17 herbergjum Það stendur stakt fremst á brekkunni. Þrátt fyrir mikinn mun milli hinna ríku verksmiðjueigenda og almennings, voru þeir velliðnir og hjálpuðu mörgum í neyð án þess að krefjast greiðslu fyrir.

Hvarf síldarinnar á sjöunda áratugnum olli því að síðast var brætt í verksmiðjunum 1966 og atvinnulífið breyttist eins og annars staðar í fiskiplássum á Norðurlandi. Kveldúlfur h.f. pakkaði saman og útgerð smábáta jókst. Aflaföng voru góð og höfnin var bætt með sjóvarnargarði í kringum 1980. K. Jónsson og Co. hóf niðursuðu um 1970 og geymdi hrogn og síld á Hjalteyri. Síldarbresturinn hafði því ekki eins mikil áhrif á atvinnulíf Hjalteyringa eins og víðast annars staðar.

KEA hóf fiskverkun á Hjalteyri í kringum 1980. B.G.B.-Snæfell hf. hóf síðar þurrkun fiskhausa til útflutnings (u.þ.b. 2000 tonn á ári og 200 tonn af skreið). Fiskeldi Eyjafjarðar hóf tilraunastarfsemi með lúðueldi 1985 (síðar Fiskey ehf.). Lúðuhrognin eru flutt frá Dalvík til klaks á Hjalteyri. Mestur hluti seiðanna er fluttur úr landi eftir að þau eru orðin 5 gr að þyngd en 10-20% þeirra eru send til áframeldis í Þorlákshöfn og síðar slátrunar. Árangurinn í lúðueldinu hérlendis hefur vakið heimsathygli og árið 2002 framleiddi Hjalteyrarstöðin 450.000 seiði.

Íbúafjöldinn árið 1950 var 130 manns. Fólki fækkaði síðan verulega en nú (2003) búa 60-70 manns á staðnum. Nokkur gömlu hosanna hafa verið lagfærð, ný byggð og sum hinna gömlu eru notuð sem sumarbústaðir. Árið 2002 var borað eftir heitu vatni á Hjalteyri með mun betri árangri en nokkurn óraði fyrir. Akureyri á eftir njóta góðs af því og þegar var hafizt handa við að leiða það í húsin á Hjalteyri. Kaffi Lísa, sem er í byggingu (2003), var fyrsta húsið, sem var tengt. Eigendur veitingahússins hyggjast bjóða gestum sjóstangaveiði (simi: 821 5920).

Endursögð og stytt grein í Félagsblaði FL apríl 2003.
Heimildir:
Thor Jensen. Framkvæmdaár. Minningar II. Bókfellsútgáfan hf. Reykjavík 1955.
Agnar Þórðarson. Hjalteyri. Munnleg heimild.
Eiríkur Jensen, Akranesi. Munnleg heimild.
Friðrik Magnússon, Hálsi, Svarfaðardal. Munnleg heimild.
Jón Þór Benediktsson.